3. nóvember 2025
3. nóvember 2025
HMS veitti 16 hlutdeildarlán í október
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- 16 umsóknir um hlutdeildarlán voru samþykktar í október og var heildarfjárhæð veittra lána um 182 milljónir króna
- Hlutdeildarlán verða fest í sessi og gerð skilvirkari
- Opið er fyrir umsóknir vegna úthlutunar hlutdeildarlána í nóvember
HMS hefur lokið yfirferð umsókna sem bárust í október vegna hlutdeildarlána. Af 26 umsóknum uppfylltu 16 þeirra skilyrði fyrir veitingu láns. Heildarfjárhæð veittra lána nam um 182 milljónum króna, en til úthlutunar voru 333 milljónir króna.
Hlutdeildarlán eru veitt til kaupa á nýjum íbúðum og standa þau til boða fyrir fyrstu kaupendur og þau sem ekki hafa átt íbúð síðastliðin fimm ár og eru undir tilteknum tekjumörkum. Í forgangi eru umsóknir þar sem staðfest kauptilboð liggur fyrir, auk þess sem miða skal við að á hverju ári verði að minnsta kosti 20% veittra hlutdeildarlána veitt til kaupa á íbúðum utan höfuðborgarsvæðisins.
Fjöldi og fjárhæðir hlutdeildarlána í október má sjá í töflu hér að neðan.
Hlutdeildarlán fest í sessi og gerð skilvirkari
Í húsnæðispakka ríkisstjórnarinnar, sem kynntur var í síðustu viku, er lögð áhersla á að gera hlutdeildarlánakerfið skilvirkara og tryggja fyrirsjáanleika í úthlutunum. Markmiðið er að greiða fyrstu kaupendum leið að húsnæðismarkaði og stuðla að auknu framboði hagkvæmra íbúða.
Framlög til hlutdeildarlána verða hækkuð úr 4 milljörðum króna í 5,5 milljarða, sem mun gera fleiri umsækjendum kleift að fá lán. Úthlutanir verða framvegis mánaðarlegar, en undanfarin misseri hefur borið á því að lokað hafi verið fyrir úthlutanir á milli mánaða. Einnig er gert ráð fyrir samningum milli stjórnvalda og byggingaraðila um uppbyggingu hagkvæmra íbúða sem falla innan kerfisins í því skyni að fjölga hagkvæmum íbúðum á viðráðanlegu verði.
Þá verða skilyrði fyrir veitingu hlutdeildarlána rýmkuð til að fleiri geti nýtt sér úrræðið. Með þessum breytingum er stefnt að því að festa hlutdeildarlánakerfið í sessi sem virkt og traust úrræði fyrir tekjulægri fyrstu kaupendur.
Opið er fyrir umsóknir fram til 13. nóvember
Opnað hefur verið fyrir umsóknir um hlutdeildarlán vegna úthlutunar í nóvember og mun umsóknartímabilið standa til kl. 12:00 þann 13. nóvember. Til úthlutunar fyrir tímabilið verða 333 milljónir króna.
Nánari upplýsingar um hlutdeildarlán og umsóknarferlið má finna á Ísland.is
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS





